Jólijól

Ég er einn af mörgum sem er ekki hrifinn af því að fólk er farið að hengja upp jólaskraut í nóvember. Aðallega samt búðir sem eru að þessum vibba svona snemma. Ekki hrifinn af því skal ég segja þér. Ég á enn eftir að fá “og gleðileg jól” frá afgreiðslufólki. Er jafnvel að pæla að segja við fólk sem segir þetta við mig fyrir svona 15.desember að ég haldi ekki upp á jólin og fara svo að gráta. Það ætti að kenna þeim. Annars þarf maður að fara að huga að jólagjöfum svona bráðlega. Það er yfirleitt allt svo dýrt hérna á fróni og lítið til að ég panta yfirleitt soldið erlendis frá. Og það tekur oft tíma sérstaklega ef það er spilaverslun í Kanada sem tilkynnir manni 30.desember að þeir hafi ekki sent gjöfina því þeir sendi ekki til Íslands. Það mun vera eins og 6 dögum of seint fyrir mig. Annars eru ákveðnar hefðir alltaf sem tengjast jólunum.

Síldarveislan: Pabbi er búinn að vera að æfa sig fyrir hina árlegu síldarveislu sem haldin verður 23.desember eins og vanalega. Karrýsíld, rúgbrauð, egg og kóladrykkur er málið að mínu mati. Veit að mörgum finnst síld ekki góð en þetta venst. Svona eins og blautir sokkar nema þeir venjast ekki.

Jólamyndir: Maður tekur alltaf smá jólamyndamaraþon. Yfirleitt samt bara Die Hard eða Leathal Weapon sem ég enda með að horfa á. Þær eru samt doldið jóla þannig að það sleppur.

Spila: Vildi geta spilað meira um jólin. Fólk samt alltaf í einhverjum boðum og oft erfitt að safna fólki saman í gott spil. Ég held að þessi jólin verði það póker. Fínt að tapa aleigunni svona rétt fyrir jólin.

Jóladagatalið: Og þá er ég ekki að meina dagatalið þar sem maður opnaði myndir úr dagatalinu þar sem þau ferðuðustu á baðkari. Palli átti það dagatal en geymdi það hjá Systu ömmu því hann þorði ekki að viðurkenna það. Ég fæ stundum súkkulaðidagatal og gleymi yfirleitt að borða bitana. Háma svo í mig í einum rykk undir lokin á desember.

Skórinn út í glugga: Ekki viss hvað málið er með sveinka. Hann virðist vera farinn að gleyma mér. Laumar stundum einhverju í skóinn á aðfangadag en það er bara ekki nóg. Er að vinna í því að skrifa formlegt bréf og kvarta í gamalmenninu.

McDonalds í hádeginu á aðfangadag: Við Páll e. gerðum þetta að venju fyrir nokkrum árum. Gerðum þetta aðallega bara til að pirra Brynju hans Páls. Jafnvel að það komi sveittur borgaradómur á aðfangadag í ár. Hvur veit.

Kvöldkaffið á aðfangadag: Fjölskyldan hittist alltaf öll heima hjá ömmu eða einhverjum af systrum mömmu. Það er árlegt á aðfangadagskvöld. Troðið í sig kökum og kannski spilað smá ef tími til gefst.

Ekki fleiri venjur sem ég man eftir í bili nema það að renna ofan í poll í hálkubleytu. Ekki beint venja heldur bara klúður.

0
Posted on 30. November 2006 by Árni Torfason