Furðulegt símtal og Eiður Smári

Fór í fótbolta í gær með nokkrum góðum mönnum. Tíminn byrjaði 18:10 og við vorum mættir rétt fyrir. Yfirleitt þegar maður er mættur smá fyrir tímann þá hreinlega bara búllíar maður viðkomandi hóp út. Hrópar kannski “Er þetta ekki bara búið hjá ykkur?” Og þá lymkast hinir niður þar sem ég er frekar massaður og fólk vill ekki lenda í mér. Hef heyrt að fólk sé að tala um þetta úti í bæ. En það er önnur saga. Við gengum að vellinum og gerðum okkur reiðubúna í að búllía kvikindin sem voru á undan okkur út. Ég hugsa að það sé bara einn maður á Íslandi sem gæti verið í tímanum á undan þannig að maður myndi hætta við í að búllía. Og sá maður var akkúrat í tímanum á undan okkur þannig að við búllíuðum ekki í þetta skiptið. Það var sjálfur Eiður Smári Guðjohnsen.

Svo fékk ég furðulegt símtal áðan. Það hringdi maður að nafni Will (breytti nafninu) og heilsaði mér með nafni og fór að tjatta eitthvað og sagðist svo vilja segja mér dálítið áður en það breiddist út. Hann tilkynnti mér að hann hefði þurft að reka Ben (breytti nafninu) og að hann ætlaði að einbeita sér betur að minni hóp listamanna. Þessi ákveðni maður skuldar mér reikning þannig að ég beið alltaf eftir að það kæmi einhver setning sem tengdist honum en það gerðist ekki. Endaði með því að hann spurði mig hvort að við ættum ekki að fara að hittast eftir áramót, kíkja kannski í pottinn. Símtalið var orðið of langt og flókið og ég búinn að fá of mikið af upplýsingum sem ég átti ekki að fá þannig að ég játaði bara.

0
Posted on 30. December 2006 by Árni Torfason