Heimilistæki, álver og ZERO gáfuð auglýsingarherferð

Já það hefur ýmislegt legið á mínu hjarta en ég hreinlega ekki haft það í mér að koma því niður á blað… skjá. Það var kosið um daginn í margfræga álversmálinu í Hafnarfirði. Hafnfirðinginar ekkert á þeirri skoðun að vilja stækka álverið. Mér er svo sem nokk sama hvort það sé eitthvað álver í Hafnarfirði eða ekki. Hins vegar ef ég væri ALCAN þá myndi ég núna fara í fýlu og flytja starfsemina í Keflavík og blása eiturgufum yfir Hafnarfjörð af miklum krafti. Svo myndi ég mála allt álverið sem er fyrir í Hafnarfirði í rauðum og hvítum lit til að það sé enn meiri sjónmengun af því. Ég hefði reyndar viljað sjá að það yrði að vera meira afgerandi kostning í svona máli. Jafnvel að þetta yrði að vera allavega 60% í aðra hvora áttina til að niðurstaða myndi komast í málið. En eins og ég sagði þá er mér slétt sama því ég á ekki heima í Hafnarfirði.

Við Auður fjárfestum okkur í íbúð fyrir skemmstu. Fáum hana afhenta núna 10.apríl. Það verður samt lítið hægt að gera því 12.apríl förum við út ásamt Hlín og Billa til London á vii seminarið góða sem ég haf hlakkað lengi til. Það er samt algjör hausverkur að kaupa íbúð. Því maður þarf ekki bara að finna sér íbúð heldur allt draslið inni í íbúðina. Ísskáp, þvottavél, ryksugu, uppþvottavél, stofuborð, sófa, sófaborð, sjónvarpsskáp og það eru til svona 15 mismunandi merki í hverju og 15 mismunandi vörur í hverju merki. Þannig að maður verður alveg nett ringlaður á þessu öllu saman. Maður verður eiginlega bara að velja sér einn stað og versla bara allt þar. Það er nokkurn veginn planið og ef allt gengur eftir þá verður þetta keypt allt saman á morgun.

Annað sem mig langaði að koma með álit mitt á er Coke Zero auglýsingaherferðin. Það er verið að beina henni að karlmönnum sem vilja kærustu sem eru með ZERO “er ég feit í þessu?”, helgi með ZERO þynnku, föt með ZERO þvott, frambjóðandi með ZERO kjaftæði. Ef þetta á að vera svona mikill karlmannsdrykkur afhverju er þá ZERO sykur í þessum drykk? Karlmenn eru ekkert að hugsa um einhvern sykur í drykk. Tilvalin auglýsingaherferð hefði verið að auglýsa þetta sem sama bragðið en enginn sykur. Sleppa algjörlega að reyna að fá karlmenn til að kaupa þetta. Karlmenn drekka hráolíu ef þeir eiga hana til. Skiptir engu máli með einhvern sykur. Ef það er einhver kona sem kaupir Coke Zero þá er hún algjörlega snarklikkuð því þessar auglýsingar eru svo að gera lítið úr konum. Þannig að ef konur kaupa ekki drykkinn og örugglega ekki margir karlar… þá er þetta dæmi ekki að ganga upp. Mesta lagi blindir sem ruglast á þessu og venjulegri kókflösku. Kannski einhver markaður þar.

0
Posted on 2. April 2007 by Árni Torfason