Blindhorn á Kópaskeri og sveitabrúðkaup

Á föstudaginn fórum við Auður norður, lengst norður, í brúðkaup. Brúðkaupið var haldið á Kópaskeri þar sem búa svona tveir manns. Sá tvo íbúa þarna alla helgina. Einn var uppi í stiga með hjólahjálm að mála og hinn var að afgreiða í búðinni. Reyndar sá ég annan mann sem var að sjá um kirkjuna. En það var sami maður og var í búðinni. Sami gaur sá einmitt um útleigu á húsinu sem við vorum í. Það var líka merkilegt skilti sem ég sá í fyrsta skipti þarna á Kópaskeri. Það var upphrópunarmerki og svo stóð “Blindhorn”. Þetta var nú ekkert gífurlegt blindhorn. Það var bara barnhár runni sem skyggði smá á útsýni til hægri. En það var samt líka biðskylda á fólkið sem var að koma þaðan þannig að þetta blindhornarskilti hefði alveg mátt missa sig. En helgin var góð. Fínt að komast aðeins frá áreitinu í borginni. Brúðurinn gerði sér lítið og henti sér út í fjöru í öllu heila dressinu og fór á bólakaf í sand. Allt gert fyrir góðar brúðarmyndir. Komum í bæinn á sunnudaginn með flugi.

Svo fór allt aftur á fullt í gær og þetta verður nokkuð annasöm vika. Ætla samt að skella mér í golf í kvöld. Meira af því síðast.

Veit einhver um sniðugt RAID diskamix sem vert er að skoða? Sem sagt box utan um kannski 4-5 diska og boxið með RAID.

0
Posted on 26. June 2007 by Árni Torfason