Byko byggir á lélegri þjónustu

Nú hefur ekki farið fram hjá neinum að Byko opnaði nýja hnullastóra búð í Kauptúni. Kauptún er sem sagt þar sem Ikea, Max, Dýraríkið og Just for Kids er. Í bækling sem var sendur til almennings kom fram að þjónustan þarna væri svo frábær að það væru menn sérstaklega í því að saga niður spýtur og hillur og drasl fyrir mann “á meðan þú bíður”. Þar sem okkur Auði vantaði hillur í nokkra skápa hérna tókum við slaginn og skelltum okkur í risaByko. Við sáum risastórt merki sem stóð SÖGUN og þangað stímuðum við í góðri von um að fá sagaðar hillur. Þar voru engar leiðbeiningar en hins vegar tveir menn bakvið hálflokaða hurð sem voru ekkert mikið að fylgjast með hvað væri að gerast fyrir utan. Loksins stungu þeir hausnum út og við spurðum hvort við gætum fengið sagaðar hillur. Okkur var tilkynnt að við þyrftum að vera með pöntunarmiða. Ekkert verið að segja okkur hvar við gætum fengið pöntunarmiðann. Við fundum eitthvað borð þar sem nokkrir menn sátu. Þar tókst okkur að panta nokkrar hillur í 2 mismunandi stærðum. Svo fórum við aftur í SÖGUN og létum hann fá pöntunina. “Við gerum þetta eins fljótt og við getum” sagði pilturinn. “Já” sagði ég og hugsaði að ég myndi bara bíða þarna eftir þessu á meðan hann sagaði þetta eins og stóð í auglýsingunni. En nei það var ekki svoleiðis. Það var ekkert tekið eftir því hversu lengi að maður þyrfti að bíða. Hann tók niður númerið mitt og sagðist ætla að hringja þegar þetta yrði tilbúið.

Endaði með að í dag, fimmtudag, 4 dögum eftir að ég byrjaði að bíða ákvað ég að hringja og kanna stöðuna. Einhver gaur svaraði og fékk hjá mér númerið og sagðist ætla að kanna þetta og hringja í mig aftur. Ég gerði mig tilbúinn til að bíða í aðra 4 daga. En hann hringdi fljótlega aftur og sagði að þetta væri tilbúið. Ég sagðist ætla að koma og sækja þetta. Við fórum og sóttum þetta. Hillurnar okkur láu þarna fyrir utan SÖGUNINA eins og illa lyktandi hræ. Allt úti í sagi og illa sögun. Við stóðum þarna fyrir utan og fyrir innan hálf lokuðu hurðina var maður eitthvað að saga. Svo kom annar maður og við sögðum að við værum að sækja þessar hillur. Hann bankaði á hurðina og sagði gaurnum sem var inni að afgreiða okkur. Hann var ekkert að sinna því heldur var áfram inni að bardúsa. Það var ekki fyrr en hann kom í annað skiptið og sagði honum að afgreiða okkur að við fengum aðstoð. “Við erum að sækja þessar hillur” sagði ég. “Já” sagði maðurinn með peltorinn. “Megum við bara taka þetta?” “Já afhverju ættuð þið ekki að mega það”. Afburðagóð þjónusta í þessari búð. Höfum farið þarna í þrjú skipti og aldrei neinn spurt okkur “Get ég aðstoðað”. Í eitt skiptið labbaði ég að svona “Get ég hjálpað” borði þar sem tveir bláklæddir starfsmenn stóðu. Og þeir löbbuðu bara í burtu og plöntuðu sér á næsta svona borð. Þetta er til skammar fyrir þetta fyrirtæki. Fólk sem er að vinna í þjónustustarfi á að þjónusta… ekki bara flýja.

0
Posted on 15. November 2007 by Árni Torfason