Maður myrtur með skrúfjárni – myndir

Ég held að það muni ekki líða langt þangað til að við fáum svona fyrirsagnir á visir.is. Og þegar klikkað er á fréttina þá koma ekkert myndir af neinum að myrða annan með skrúfjárni heldur bara mögulega myndir af skrúfjárni í stúdíói eða verið að flytja mann í dómsal. Það er alltaf að færast í aukana að fyrirsagnirnar á visir.is séu hreinlega að ljúga að okkur. T.d. sá ég eina fyrirsögn sem stóð “Notar sérstakan klósettpappír – myndir”. Mér til mikillar gleði voru engar myndir af Mariuh Carrey að skeina sér en fréttin fjallaði um Mariuh Carey og kröfur hennar fyrir viðtal sem var tekið við hana á GMTV sjónvarpsstöðinni. Svo í lokin stendur “Svo má geta þess að Mariah hafði með sér eigin klósettpappír.” Rétt fyrirsögn gæti því verið “Miklar kröfur Mariuh Carey” og þá sleppa “-myndir” endingunni. Eða þá “Mariah Carey með sólgleraugu að kvöldi til fyrir framan svartan bíl – myndir”.

Önnur frétt sem ég rak augun í sem verður án efa tekin út áður en dagurinn er á enda ber fyrirsögnina “Hvaða hórutal er þetta? – myndir“. Myndirnar við fréttina tengjast svo sannarlega engum hórum eða ég ætla rétt að vona ekki því að þarna eru myndir af Ben Affleck, dóttur hans, Violet, og þremur blöðrum. Ef þið smellir á linkinn hérna fyrir ofan og lesið fréttina þá meikar hún líka lítið sens. Þar stendur í aðeins styttri orðum en fréttin er: “Myndirnar eru af Ben Affleck, Violet dóttur hans og þremur blöðrum. Ben Affleck segir að hann muni hringja í Matt Damon ef hann vaknar við hliðina á dauðri hóru. Ben hefur verið fjarri fjölskyldunni í Boston að leika í kvikmynd.”

Ef ég eignast einhvern tíman barn og visir.is mun birta svona myndagrein þar sem gefur til kynna að barnið mitt sé hóra þá hugsa ég að ég yrði ekki mjög sáttur. Hvað með þig?

0
Posted on 25. November 2009 by Árni Torfason