Michael Vick grætur sundhettustuld Hallgríms Helgasonar

Mikið af skemmtilegum fréttum þessa vikuna. Ungur og atvinnulaus maður kom til lögreglunnar og vildi kæra tvo útlendinga sem hann hafði góðfúslega rétt 10.000kr og ætlað að kaupa smá eiturlyf af. Þegar hann var búinn að greiða fyrir efnið þá hlupu þeir á brott og stálu af honum peningnum, hvor 5.000kr ríkari. Maðurinn auðvitað ekki sáttur við að hafa verið rændur en ég stórefast um að ég myndi hoppa beint til lögreglunnar og kæra dópsala fyrir að hafa rænt mig. Þetta er svona eins og þegar maður stelur snickers úti í búð og var ekki með gleraugun og var í rauninni að taka hnetupowerbar sem er svo sannarlega ekki snickers. Svo þegar maður mætir aftur í búðina þá er búið að loka og maður situr uppi með hnetupowerbar. Líklegast myndi ég ekki fara til lögreglunnar og kvarta að Nóatún væri búið að loka. (visir.is)

Herra Misheppnaður heldur áfram að skemmta fólki á klakanum. Skrifaði stuttan pistil einu sinni um Benedikt LaFleur eftir ítrekaðar misheppnaðar sundferðir hjá honum. Á laugardaginn voru allar björgunarsveitir í Skagafirði kallaðar út til að bjarga Benedikt. Leitin var hins vegar afturkölluð eftir 15 mínútur þegar kom í ljós að Benedikt var ekki týndur heldur hafði hann bara misst sundhettuna sína. (visir.is)

Það koma stundum fréttir á netfréttamiðlum landins þar sem það er eins og að fréttafólkið geri ráð fyrir að fólk viti töluvert meira heldur en það gerir. T.d. bar ein frétt hjá visir.is fyrirsögnina “Vick grét í fangelsinu”. Í fréttinni kemur fram að hann er leikstjórnandi, hann grét í fangelsinu, hann gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins, hann er nýkominn með keppnisleyfi… en bíddu… hvað gerði hann. Stal hann hnetupowerbar úr Nóatúni, rændi hann ásamt vini sínum Íslending sem hélt að hann væri að kaupa eiturlyf, stal hann sundhettunni hand LaFleur eða hattinum hans Hallgríms. Það sem hefði átt að fylgja fréttinni er það að hann var ákærður fyrir að hafa starfrækt í um 5 ár ólöglega hundabardaga. Í kjölfarið var hann fundinn sekur og sendur í 23 mánaðar fangelsi. (visir.is)

Allra skemmtilegasta og furðulegasta fréttin kom núna í morgun þegar það var tilkynnt á mbl.is að hattinum hans Hallgríms Helgasonar hefði verið stolið. Sagan segir að hópur manna innan sjálfstæðisflokksins hafi stolið hattinum hans Hallgríms. Talað er um að Hallgrímur hafi verið að röfla eitthvað um að sjálfstæðismenn bæru ábyrgð á öllum vandamálum Íslands. Sjálfstæðismenn sem voru í brúðkaupinu sem atvikið átti sér stað í eru taldir hafa borgað einhverjum bæjarbúa 10.000kr fyrir að hafa stolið hattinum. Eina sem Hallgrímur vildi tjá sig um málið var “Já, þeir náðu hattinum.” (mbl.is)

0
Posted on 18. August 2009 by Árni Torfason