AP og bókagerð

Frá því á þriðjudaginn í síðustu viku hefur gjörsamlega verið bókuð dagskrá hjá mér frá morgni til kvölds. Byrjaði allt með því að á þriðjudagsmorgun hringdi myndstjóri frá AP í mig og spurði hvort ég gæti myndað efnahagsástandið á Íslandi. Sagði mér að það hefði komið til landsins blaðakona deginum áður og hana vantaði ljósmyndara með sér í hin og þessi verkefni. Ég játti því að sjálfsögðu. Fór á daglegu blaðamannafundina, myndaði nokkur bankaútibú, bílasölur, fólk, kráarlíf og daglegt líf. Það fór meira og minna allur dagurinn í þetta með smá pásum. Blaðakonan fór síðan seinnipartinn á föstudaginn enda allt saman að róast svona nokkurn veginn. Ég passaði mig á því að reyna að segja henni svona það helsta sem var að gerast í fjölmiðlunum hérna og reyna að pota að henni alls konar sniðugu efni eins og að ég, ásamt 5000 öðrum íslendingum, væri orðinn vinur Pútins á facebook. En ég forðaðist það eins og heitan eldinn að segja henni frá einhverju sem gæti komið sér illa fyrir Íslandið. Datt t.d. ekki til hugar að segja henni hvað Davíð Oddsson sagði um skuldir bretanna í Kastljósinu.

Það var ánægjulegt þegar myndstjórinn hringdi í mig og tilkynnti mér að ég ætti forsíðuna á The International Herald Tribune sem er temmilega stórt blað. Annars virðast myndirnar hafa farið víða enda varla til land í heiminum þar sem ástandið er í meira rugli en hérna. Fólk var greinilega mis ánægt með að myndir af því færu út um allan heim eins og þessi ljóti hálfviti tjáði Mbl.is.

Og svo á milli þess sem ég var að taka myndir var ég að setja upp mína fyrstu bók. Ekki bók eftir mig heldur rithöfund. Var í því að setja upp kápuna sem og allan texta í bókina. Fyrsta skipti sem ég geri eitthvað svona og mikið og margt sem ég lærði af þessu. Var virkilega skemmtilegt verkefni sem er að klárast á morgun ef allt fer eins og það á að fara. Verður afar gaman að sjá endanlega útgáfu. Læt ykkur vita nánar um þetta verkefni þegar bókin er komin úr prentun og farin í sölu.

0
Posted on 14. October 2008 by Árni Torfason