Laugardagsbrúllaup og hlöðubruni

Á laugardaginn var Auður í vaktafríi. Var sem sagt að vinna föstudag og laugardag. Vöknuðum svona um 13 og tókum okkur til. Keyptum okkur að borða, bættum smurolíu á bílinn og lögðum svo í hann. Komum við á Eyrarbakka hjá Sigurgrjóni og versluðum eina mynd af honum. Svo lá leiðin yfir á Selfoss í átt að Flúðum og enduðum í Syðra Langholti. Þar var brúðkaupsveisla hjá Jóa frænda mínum og Beggu konunni hans. Þau voru búin að gifta sig formlega í Danmörku þannig að þetta var í rauninni bara brúðkaupsgleði. Þegar við mættum var nýbúið að forða hlöðunni frá bruna. Kom smá glóð frá grillinu sem var að elda svína- og lambaskrokk og það kom víst temmilegt bál. Bóndinn sem var að leigja pleisið var ekkert of sáttur með þennan bruna en algjörlega honum að kenna að bjóða upp á grillaðstöðu og vera með gommu af þurru heyi við hliðina á pappahlöðunni. Þetta var fínasta veisla og maturinn afar hress. Fórum ekkert mjög seint í bæinn þar sem Auður þurfti að mæta á vakt daginn eftir. Búin að vera á vakt annan hvern dag í næstum heilan mánuð. Það er temmileg geðveiki.

Hérna er smá video þegar þau mættu formlega í brúðkaupið sitt. Komu hjólandi með dósir í eftirdragi. Svo er bara að horfa á videoið. Var ansi hresst hjá þeim. Gaman að fara í brúðkaup sem ekki allir eru uppstrílaðir í einhver fansípansíföt. Þarna var fólk bara í gúmmítúttum og lopapeysum. Svo er ég að vinna í því að setja fleiri video frá brúðkaupinu á youtube. Meðal annars video frá “Perrabandinu” sem gerði góða hluti eins og þeir eru vanir.

0
Posted on 28. July 2008 by Árni Torfason