Archive

for June, 2013

A39A8187
ALMENNT LJÓSMYNDUN

Stokkhólmur og Zlatan

Fyrsta maí síðastliðinn fluttist ég frá Íslandinu góða yfir í Svíþjóðið góða. Við vorum hjá frændfólki í Staffanstorp sem er í suðurhluta Svíþjóðar í tæpan mánuð og færðum okkur svo yfir á áfangastað. Nú verður heimili mitt í Stokkhólmi allavega næstu 5-10 árin geri ég ráð fyrir. Auður, konan mín, er að vinna á Karolinska sjúkrahúsinu í Solna. Ég verð að vinna hjá bókaútgáfu sem er staðsett bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Spennandi tímar þar framundan. Planið er svo að reyna að vera duglegur að taka myndir. Þannig að ef ykkur vantar ljósmyndara í Stokkhólmi þá megið þið endilega hafa samband. Best er að ná í mig með því að senda e-mail á mig á arnitorfa@gmail.com. Eða þá í gegnum facebook.

Við erum búin að gera þetta helsta sem þarf að gera til að koma sér af stað í nýju landi. Kennitala, id-kort, bankareikningur og svoleiðis hressleiki. Við erum í húsi núna sem við leigjum til 25.júlí og förum svo í íbúð í Kungsholmen þar sem við leigjum af tveimur læknum sem eru að fara í skiptinám til Boston. Leikskólinn sem Elísa dóttir okkar fékk pláss á er í 3-5mín göngufæri frá þeirri íbúð. Auður verður c.a. 15-20mín að hjóla á spítalann. Stutt í fullt af ströndum og veitingastöðum. Þetta verður í fyrsta skiptið í ansi mörg ár sem við verðum bíllaus. Er nokkuð spenntur að prufa að vera bíllaus. Samgöngurnar hérna eru í góðu lagi og alltaf verið að bæta þær.

Um daginn skellti ég mér í Friends Arena og myndaði Svíþjóð gegn Færeyjum í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ég hef alltaf verið hrikalega hrifinn af Zlatan Ibrahimovic þannig að það skemmdi ekki fyrir að hann spilaði allan leikinn. Skoraði tvö mörk og var með alls konar gott vesen sem ég kann að meta. Munurinn á honum og t.d. Suarez og Mascherano er að Zlatan er endalaust að gera litla lúmska hluti. T.d. kastaði hann boltanum í andlit markmanns Færeyja en gerði það svo fáránlega lúmskt að hann fékk ekki einu sinni spjald fyrir. Svo var hann duglegur að láta varnarmenn Færeyja vita að hann væri búinn að skora tvö mörk en þeir ekkert. Á meðan Suarez bítur og Mascherano sparkar í bílstjóra. Þannig er mjög auðvelt að elska Zlatan en hata S og M eins og ég vil kalla þá.

Munurinn að taka myndir á Friends Arena og t.d. Laugardalsvellinum er svakalegur. Ég vil ekki gera lítið úr Laugardalsvellinum eða fólkinu sem sér um hann. Virkilega vel að öllu staði í þeim málum. En völlurinn í Stokkhómi er yfirbyggður sem þýðir að það er ekkert rok og engin rigning. Flóðljósin eru virkilega flóðljós þannig að lýsingin er alltaf eins. Mæli með að Ísland splæsi í svona þjóðarleikvang.

Ef þið hafið áhuga á að skoða myndir sem ég tók á leiknum getið þið séð þær hér: http://www.demotix.com/news/2144181/sweden-defeats-faroe-islands-2-0-2014-world-cup-qualifier

Stefni svo á að skella mér að mynda leik með AIK og svo er úrslitaleikur á evrópumóti kvenna í knattspyrnu í lok júlí.

Posted on 13. June 2013 by Árni Torfason Read More