Archive

for January, 2009

ALMENNT

Grenjandi rigning í Addis Ababa

Kom til Addis Ababa í morgun rétt um 8:00 að Eþíópískum tíma. Skipti pening úr dollurum í Birr. Fór svo í VISA röðina sem gekk virkilega hægt fyrir sig þar sem það var ekkert kerfi á því hvaða röð fékk að fara næst í tjékk. Mjög spes allt saman. Náði í töskurnar mínar og þau vildu kíkja ofan í Pelican töskuna mína þar sem ég var með myndavéladót. Þau grömsuðu og fannst 70-200mm linsan mín vera eitthvað voða professional. Ég veit ekki hvað hún var að pæla en ég sagði henni að þetta væri svona semi professional bara. Og hún spurðist eitthvað fyrir og spurði mig hvort það væri geisladiskur í myndavélinni minni. Held hún hafi verið að spyrja eitthvað annað en ég skyldi hana þannig. Ég neitaði því og hún sagði mér að þetta væri fínt. Tók leigubíl af flugvellinum og á NLM (Norsk Lútersku Missjónerí) júnitið þar sem vel var tekið á móti mér. Er í herbergi með 4 rúmum fyrir mig einan og vaski. Klósett og sturta bara beint á móti herberginu. Fór svo í te og brauð hjá þeim sem sjá um þetta hérna. Ætlaði svo að rölta á Hilton hótelið til að kaupa mér sim-kort í símann minn. Ágætt að geta hringt hérna innan Eþíópíu þar sem ég verð í töluverði mixi að koma mér milli staða. Þegar ég var að fara að leggja af stað stoppaði Selam sem vinnur hérna og spurði hvort ég vildi far. Ég játti því. Fór í skoðunarferð um borgina, keypti prentara, sótti bíl í viðgerð, skipti um dekk á bílnum og ýmislegt fleira. Sem var mjög fínt. Gaman að sjá hvernig lífið gengur fyrir sig hérna í Addis. Umferðin er líka spes. Ábyggilega bara ein ljós í borginni þannig að allir keyra bara yfir gatnamót eins og þeim hentar. Kom svo heim og rölti aðeins einn hérna í nágreninu. Ég er eins og hneta í rúsínudollu og allir horfa á mig eins og ég sé einhver sýningargripur. Krakkar hafa mikið stoppað mig og viljað taka í hendina á mér. Einn bauð mér að koma í fótbolta með sér á einhverju máli sem ég skildi svo sannarlega ekki en honum tókst að koma þessu á framfæri. En ég var á leiðinni akkúrat í öfuga átt að kaupa mér að borða þannig að það var ekki gott plan. Hefði annars verið mjög til í smá bolta. Veit hvar völlurinn er þannig að hver veit nema að ég skelli mér þegar ég kem hingað aftur 12.febrúar.

Planið á morgun er að vakna klukkan 5:00 og leggja af stað út á flugvöll 5:30. Flug til Arba Minch klukkan 7:45. Flugið fer bara svona stundum þannig að það er ekkert víst að flugvélin fari. Með minni heppni verð ég eitthvað lengur hérna í Addis. Vona samt að þetta reddist. Á það skilið eftir allt flugvesenið undanfarnar vikur. Ætti að lenda í Arba Minch um 10:30 og svo er að koma sér frá Arba Minch flugvellinum inn í miðborgina og reyna að komast í rútu eða með einkabíl áleiðis til Jinka. Stoppa í héraði sem heitir Voito. Er með síma með mér þannig að ég get hringt í Kristján sem mun taka á móti mér í Voito. Vonandi að þetta gangi allt saman eftir í einni ferð.

Núna úti er grenjandi grenjandi rigning. Eins og það var glampandi glampandi sól í dag. Ætla mér að massa sturtu og fara svo að leggjast til hvílu. Klukkan að verða 20:00 hérna þannig að það eru 9 tímar þangað til ég vakna.

Ég verð í afar litlu sambandi í Voito þannig að ég læt ekkert heyra í mér aftur fyrr en ég er kominn til Jinka. Eitthvað betra samband þar.

Posted on 24. January 2009 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

Fuglar flugu í hreyfil í Róm

Ferðalagið byrjaði vel til Addis Ababa. Var mættur til London rétt fyrir hádegi. Stakk töskunum í geymslu, hitti Billa á bar þar sem við drukkum bjór og átum hamborgara og dönsuðum hægan vangadans í takt við ljúfa tóna Michael Bolton. Fór svo aftur á flugvöllinn rétt rúmlega 1900. Þar var mér tilkynnt að það hefðu fuglar flogið í hreyfil á flugvélinni sem átti að flytja mig til Addis Ababa. Þannig að fluginu var frestað. Kom mér ekkert svo á óvart þar sem ég lendi doldið í þessu. Þeir buðu mér hótel en ég sagðist geta gist hjá vinum í London. Bjallaði í Billa sem gaf mér leiðbeiningar um hvernig ég kæmist heim til hans og Hlínar sem búa hérna í London. Fékk þetta fína Lasagna og meiri bjór og svo spiluðum við Billi Rallýleik á xbox sem heitir eitthvað og er frá 2003 eða 2005. Frekar 2003 samt. Ég vann ekki oft en Billi vann oft.

Eins og staðan er núna á ég flug klukkan 21:00 frá London til Addis Ababa. Nú er bara að vona að fuglarnir séu allir dauðir svo að vélin geti flogið fram og til baka eins og ekkert sé. Millilendi líklegast í Róm.

Meira síðar. Kveð í bili.

Posted on 23. January 2009 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

Pissar pósturinn á þína girðingu?

Var á leiðinni í myndatöku í dag uppi í Mosfellsbæ þar sem ég sé rauðklæddan náunga á vappinu. Þegar ég kom nær sá ég að þetta var póstburðarmaðurinn frá póstinum. Hugsaði með mér að þetta væri ábyggilega helvíti fínt starf. Vera á röltinu á daginn þegar enginn annar er á ferli. Smella einhverjum umslögum inn um lúgur hjá fólki. Ágætis hreyfing að rölta bara um á hverjum degi. Mögulega ekkert allt of vel borgað en samt fínt. Fór í eina myndatöku og á leiðinni í þá næstu sé ég ekki hvar póstburðarmaðurinn stendur upp við girðingu við eitt húsanna sem hann hafði nýlokið sér af að bera í og pissaði eins og enginn væri morgundagurinn á girðingu fyrir utan húsið. Maður hefur nú oft verið í spreng á furðulegustu stöðum og hreinlega orðið að láta vaða. En þá finnur maður sér einhvern betri stað heldur en girðingu hjá fólki. Þannig að sá sem á heima í gulu endaraðhúsi innst í götunni í Svöluhöfða 1-9 (man ekki nákvæmlega húsnúmerið) á útpóstpissaða girðingu.

Posted on 19. January 2009 by Árni Torfason Read More
LJÓSMYNDUN

Torfason.is og Gunnar Nelson

Það var löngu kominn tími á að uppfæra http://www.torfason.is sem hefur gengt því hlutverki að sýna umheiminum ljósmyndirnar mínar. Eins og vefurinn var uppsettur hérna áður fyrr þá sýndi vefurinn svona hitt og þetta sem ég hefði verið að gera. Sitthvað gott en annað bara ekki svo gott. Það var aragrúi af myndum í alls konar flokkum. Tók hressilega til í þessu og tel ég síðuna núna sýna hvernig ljósmyndari ég er og vil vera. Meikaði varla sens fyrir mér þessi setning þannig að þið eruð væntanlega engu nær. Síðuna getið þið fundið undir http://www.torfason.is eða með því að smella á PORTFOLIO hérna efst á síðunni.

Eins og fólk sér kannski í fljótu bragði eru einungis að finna myndasögur/seríur á síðunni en ekki stakar myndir í flokkunum eins og var á eldri síðunni. Ég nota forrit sem heitir Soundslides Plus til að búa til slideshow fyrir sögurnar. Adobe Flash player sem fólk þarf að hafa til að geta skoðað þetta.

Nýjasta serían á síðunni er sería sem ég vann að í New York vikuna 8.desember til 15.desember. Myndaði þar ungan strák sem heitir Gunnar Nelson. Hann stefnir á að verða fyrsti Íslendingurinn til að keppa í UFC keppninni. Fékk að gista hjá Sigurjóni á meðan ég vann að sögunni. Þakka honum fyrir það sem og hjálpina við að púsla saman sögunni. Billi hjálpaði mér einnig að velja úr myndunum og þakka ég þeim báðum fyrir það. Getið tjékkað á sögunni af Gunnari með því að smella á myndina hérna fyrir neðan.

Posted on 14. January 2009 by Árni Torfason Read More
ÍÞRÓTTIR YOUTUBE

Manchester United og Benítez eitthvað brjálaður

Ef það er einhver sem veit hvað kom fyrir Benítez þá væri ágætt að fá það í kommenti. Hann er eitthvað gramur og að væla í alla fréttamenn sem hann finnur út í að Alex Fergusson sé bjáni og komist upp með allt. Furðuleg taktík hjá honum ef þetta er einhver taktík því að eftir að hann fór að væla gerði Liverpool jafntefli en MUFC vann Chelsea 3-0.

Annað sem mig langaði að ræða er hornspyrnan sem var dæmd af Manchester United í leiknum gegn Chelsea á sunnudaginn. Er fólk ekki almennt á þeirri skoðun að þetta hafi verið lögleg hornspyrna? Hérna er video af þessu atviki.

Posted on 13. January 2009 by Árni Torfason Read More
1 2