Archive

for July, 2008

ALMENNT

Central Park í kvöld, ýmislegt í dag

Læt mig að sjálfsögðu ekki vanta á sýninguna hans Sigurjóns í kvöld. Það er ennþá nokkrir klukkutíma þangað til að maður fer í sitt fínasta og skellir sér á Eyrarbakka. Þangað til þarf ég að gera ýmislegt. Ganga frá myndum. Sækja myndir í Pixla. Sækja myndir í ATH. Svo jafnvel lauma eins og einum þætti af The Wire í tækið. Virkilega miklir klassaþættir og mæli eindregið með þeim ef fólk hefur ekki séð þá.

Posted on 25. July 2008 by Árni Torfason Read More
INNLENDAR FRÉTTIR

Hvar er nakta Pólstjarnan?

Það er margt furðulegt við hvarf þessa manns í Esjunni í gær. Nokkrar staðreyndir um málið.

 • Göngufólk mætir manninum í um 600m hæð
 • Fólkið hefur samband við lögregluna og í framhaldinu hefst leit
 • Fötin hans finnast í 200m hæð
 • Bíllinn hans og skilríki finnast á bílastæðinu við fjallið
 • Um 120 manns tóku þátt í leitinni sem og þyrlur, ekki samt 120 þyrlur
 • Fólk sem þekkti manninn sagði að hann væri ekkert óvenjulegur

Það er gjörsamlega óskiljanlegt að maðurinn geti horfið svona sporlaust. Það er ýmislegt sem gæti mögulega útskýrt þetta.

 1. Maðurinn virtist vera einn á ferð. Hann týndi 5.000kr heima hjá sér. Heldur að hann sjálfur hafi týnt því og þetta er leið fyrir hann sjálfan að handrukka sig.
 2. Hann tapaði veðmáli. Hljóp upp á Esjuna. Áður en lögreglan kom á svæðið var hann kominn niður. Er núna inni í sama skáp og Annþór faldi sig í Mosfellsbænum og þorir ekki að koma út því það var svo kalt á hólnum.
 3. Hann er að sviðsetja sitt eigið hvarf. Til að pottþétt yrði tekið eftir honum var hann nakinn. Keyrði hinum megin við Esjuna. Skildi eftir hjól og föt þar. Keyrði hinum megin við Esjuna aftur. Fór áleiðis upp í Esjuna. Fór þar úr fötunum til að vekja athygli þegar hann sá fólk. Mætti fólkinu. Fór yfir hólinn og í fötin á hjólið og er kominn hálfa leiðina á Þingvelli þar sem hann ætlar að haldast við í nokkra mánuði á húsbát á Þingvallavatni.
 4. Eftir að hafa óvart horft á Impact Point með Brian Austin Green í aðalhlutverki fór maðurinn bara gjörsamlega yfirum með þessum afleiðingum. Á endanum bara sprakk hann og þess vegna finnst hann ekki.
 5. Það sem göngufólkið hélt að væri nakinn Pólverji var í raun og veru ísbjörn. Og það sem var í raun og veru ísbjörn var í raun og veru kind. Og það sem í raun og veru var kind var í raun og veru hvítur steinn. Og það sem var í raun og veru hvítur steinn var í raun og veru bláber.

Það verður allavega virkilega gaman af því að sjá hvernig þetta mál endar. Og vonandi endar þetta vel. Eitt sem ég skil ekki í þessu er að það er maður týndur. 120 manns að leita að honum en hvergi birt mynd af honum. Hvernig á fólk að geta verið vart um ferðir hans ef það veit ekki hvernig pólstjarnan lítur út? Sem sagt miðað við að hann sé kominn í föt.

VIÐBÓT:
Maðurinn fannst látinn í suðurhlíð Esjunnar á ellefta tímanum í morgun. Þannig að mögulega fáum við aldrei að vita hvað kom fyrir þennan unga mann. Var eiginlega að vona að þetta hefði verið pæling númer 2 hjá mér. Að hann hafi tapað veðmáli og ekki þorað að gefa sig fram eftir að hann sá að það voru svona margir farnr að leita. En svo var því miður ekki.

Posted on 25. July 2008 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

Nýtt útlit, nýtt kerfi, nýjar nærbuxur

Eins og þið, sem hafið komið hingað áður, sjáið þið að það er komið nýtt útlit á vefinn. Það sem þið kannski sjáið ekki þá er líka komið nýtt kerfi á bakvið vefinn. Ákvað að notast við WordPress sem er ansi hresst kvikindi verð ég að segja. Var búinn að notast við K2 kerfið sem hormjon gerði og eins og það þjónaði mér vel þá tel ég þetta vera skref í rétta átt. Skref áfram. Hljóma eins og einhver lyginn þingmaður þannig að best að hætta því. Mun líklegast reyna að plata hormjon til að færa færslurnar úr K2 yfir í WordPress. Það á víst að vera hægt með einhverjum göldrum og eins og fólk ætti að vita núna er hormjon galdramaður. Annað sem er nýtt eru nærbuxurnar mínar sem ég keypti í Hagkaup. Þær samt passa eiginlega ekki en það er önnur saga. Vonast til að með þesu útliti þá taki ég mig á í skrifum og skrifi á meira en mánaðarfresti eins og þetta var orðið undir lokin. Ég vil bara nota tækifærið til að bjóða sjálfan mig velkominn aftur.

Posted on 24. July 2008 by Árni Torfason Read More
LJÓSMYNDUN

Central Park

Sigurjón sokkur eins og hann er kallaður er að fara að opna formlega Central Park sýninguna sína á föstudaginn næsta, 25.júlí. Opnunin er frá 19-22 og mæli eindregið að fólk mæti. Ef ekki á opnunina þá á þá daga sem sýningin er opin. Nánari upplýsingar um það hér. Sýningin er í Gallerý Gónhól, Eyrarbakka.

Ein af myndunum sem er að finna á sýningunni.

Ef þið komist ekki á sýninguna þá getið þið samt skoðað myndirnar sem eru að finna á henni hérna. Það er samt allt annað að sjá svona myndir hressilega stórar uppi á vegg eða litlar á vef. Þannig að mæting er málið.

Posted on 24. July 2008 by Árni Torfason Read More
1 2