Archive

for August, 2007

ALMENNT

Verslunarmannahelgin

Jámm og jæja. Ágætt að koma með Verslunarmannahelgarblogg næstum viku seinna en hún var. Ég, Auður, Hlín og Billi keyrðum af stað út úr bænum um 18:00 á föstudaginn. Stefnan var tekin á Suðureyri við Súgandafjörð. Stoppuðum í Borgarnesi til að fá okkur að borða. Fengum matinn okkar eftir svona 40 mínútna bið. Veit ekki alveg hvað málið var með það. Ferðin gekk ágætlega fyrir sig þangað til Billi fór að sjá rauð augu út um allt. Þá tók ég við síðustu metrana. GPS gaurinn í símanum mínum kom sér vel. Ekki það að við vissum ekki hvert við vorum að fara en þægilegt að sjá nákvæmlega hvar maður er. Þó svo að þetta nákvæmlega staðsetji mann úti í sjó en ekki á veginum. Gistum í húsi frænku minnar á Suðureyri. Ansi ágætt að sleppa við að húka einhvers staðar í tjaldi. Þökkum kærlega fyrir okkur. Laugardagurinn fór í það að skoða næsta nágreni. Renndum við á Ísafirði og skoðuðum Mýrarboltann sem var ansi hress og blautur. Sunnudagurinn var bjartari. Fórum upp á Bolafjall þar sem er útsýni yfir Djúpið. Skoðuðum einnig aðeins meira og mynduðum Mýrarboltann. Svo um kvöldið var grillað annan daginn í röð og ég hef held ég sjaldan verið jafn saddur. Fórum snemma af stað áleiðis í bæinn á mánudaginn. Keyrðum vesturleiðina svokölluðu og stoppuðum m.a. á Dynjandafossi, Tálknafirði, Rauðasandi og svona hér og þar. Vorum komin í bæinn 27,5 mínútur í miðnætti og hafði ég sigur úr býtum úr giskkomíbæinnleiknum. Var hálfri mínútu frá því að vera með þetta 100%.

Tók eins og einar 8 filmur sem ég ætla að reyna að skanna inn fljótlega í ferðinni. Fór með þær í Pixla og það er svo sniðugt þar að maður þarf ekki að bíða í viku til 10 daga eftir að fá filmurnar til baka eins og hjá Hans Petersen.

Posted on 9. August 2007 by Árni Torfason Read More
1 2