Archive

for May, 2006

ALMENNT

Dagurinn í dag

Myndataka 9:15
Myndataka 10:30
Myndataka 12:00
Myndataka 13:00
Myndataka 15:00
Fundur 16:00
Taka mynd fyrir dpc 17:00
Ganga frá myndum 18:00-20:00
Fótbolti 22:00

Það er margt og mikið að gerast í dag. Er á leiðinni á Selfoss eftir 5 mínútur. Áður en það gerist ætla ég að borða.

Barcelona vann Meistaradeildina sem var sanngjarnt. Mun betra lið heldur en Arsenal. Eurovision er í kvöld. Grunar að við náum góðum árangri og vinnum keppnina… Ég ætla að elda pasta í kvöld, kjúkling á morgun. Svo kemur helgin. Helgar eru góðar.

Posted on 18. May 2006 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

Helgin framundan

Þegar fólk hugsar um helgi þá hugsar það um frí, afslöppun, sjónvarpsgláp og meira í þeim dúr. Helgarnar mínar eru yfirleitt og alltaf ekkert af þessu og verður þessi ekkert frábrugðin. Á morgun ætla ég að kíkja á Augnablik til Framtíðar sem er fagstefna í tilefni af 80 ára afmælis Ljósmyndarafélags Íslands. Dagskráin byrjar klukkan 13 og stendur yfir til klukkan 18 c.a. Fullt af sniðugu fólki að halda fyrirlestra. Hlakka bara dálítið til ef ég á að segja alveg eins og er.

Svo á sunnudaginn hefst Landsbankadeildin og aðrar deildir og þá hefst fjörið fyrir alvöru. Á sunnudaginn er planið að mynda 6 knattspyrnuleiki. Svo verða þrír myndaðir á mánudaginn og aðrir þrír á þriðjudaginn. Þannig að það verður nóg að gera næstu daga. Ekki ætla ég að kvarta undan því að það sé nóg að gera.

Sjáumst á stefnunni eða vellinum. Yfir og út.

Posted on 13. May 2006 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

ex-bé

Nú hef ég mjög takmarkaðan áhuga á stjórnmálum. Það er samt ekki nokkur leið að láta þetta fara framhjá sér. Auglýsingar frá frambjóðendum hvert sem maður lítur. Stundum tekur stjórnmálafólk furðulegar ákvarðanir og furðulegheitin voru greinilega í fyrirrúmi þegar ex-bé menn ákváðu að kosningarbíllinn þeirra væri 10 milljón króna Hummer sem eyðir meira bensíni heldur en Svíþjóð. Og svo kom rúsínan í pylsuendanum þegar þeir létu nappa sig að leggja fyrir utan skóla í fatlaðrastæði. Og það frekar mikið á ská líka þannig að þeir tóku ekki bara eitt stæði. Heldur annað stæði og smá gangstétt í leiðinni. “Ertu með?” spyrja ex-bé menn… og svarið er “nei”.

Posted on 7. May 2006 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

Tískusýning

Fór í fyrradag, föstudag, og smellti nokkrum myndum af tískusýningunni sem útskriftanemendur í Listaháskólanum héldu í Hafnarhúsinu. Var að mynda fyrir kærustu félaga míns sem var með einhverjar flýkur þarna.

Ég kom þarna rétt rúmlega átta og þá voru allir búnir að koma sér vel fyrir. Ég tróð mér að sjálfsögðu alveg fremst fyrir framan allt og alla og fékk mér sæti. Gott að vera bara 1 meter og 20 sentimetrar á hæð. Annars var ég nú ekki fyrir neinum enda ekki þekktur fyrir það að vera leiðinlegur og vera fyrir. Allavega… svo byrjar sýningin og þar sem ég sat svo framarlega og neðarlega og þar sem það virðist vera móðins í dag að vera með alla kjóla og pils styttri í annan endan heldur A4 blað þá varð ég að líta undan í hvert skipti sem módel kom að enda brautarinnar því annars hefði ég ábyggilega séð undir pilsið hjá viðkomandi stúlku. Hefði verið frekar asnalegt að láta nappa sig vera að horfa undir pilsið og milljón manns að horfa. Þannig að ég var eiginlega bara fljótur að færa mig á annan stað enda var þessi staður alls ekki tilvalinn til myndatöku. Bakgrunnurinn var bara hvítt lak og svart lak. Ekki alveg að gera sig. Þannig að ég færði mig upp og út um allt og kláraði sýninguna á ferðinni bara.

Ég tók saman smá seríu með myndum frá þessum viðburði sem þið getið séð hér.

Posted on 7. May 2006 by Árni Torfason Read More
ALMENNT

Illhugsi Jökulsson

Var að klára að horfa á Meistarann á Channel Two og þar kepptu Illugi Jökulsson og einhver piltur. Meistarinn virkar þannig að í lokin á þættinum velja keppendur sér spurningu og leggja undir stig á spurninguna, 1 3 eða 5 stig. Ef þú getur spurninguna færðu stigafjöldann en ef þú getur ekki spurninguna þá taparðu sama stigafjölda. Og hinn keppandinn má reyna að giska á svarið og fær þá eitt stig.

Undir lokin var Illugi með eins stigs forystu, 19-18, og hann átti eina spurningu eftir og var það lokaspurngin. Eðlilegast væri að leggja 1 stig undir. Ef hann getur spurninguna þá vinnur hann 20-18. Ef hann getur ekki spurninguna er staðan 18-18 og hinn keppandinn má giska og á þá smá sjéns. En af einhverri furðulegri ástæðu ákvað Illugi að velja að taka 5 stig og reyndi Logi hvað hann gat að stöðva hann að gera þessi stórfurðulegu mistök. Finnst það reyndar hálf furðulegt af Loga að reyna að hjálpa Illuga svona mikið. En Illugi fattaði ekkert og náði þessu engan veginn og lagði 5 stig undir. Svo gat hann auðvitað ekkert spurninguna og var því allt í einu með 14 stig gegn 18. Svo reyndar gat hinn keppandinn spurninguna og vann hann 14-19.

Þetta er það furðulegasta sem ég hef séð í þessum þætti.

Annars held ég með gamla manninum í Meistaranum. Ég vil sjá fimm milljónir í vösunum hans.

Posted on 4. May 2006 by Árni Torfason Read More
1 2 3